Orðsending frá stjórn foreldrafélagsins

Kæru foreldrar og forráðamenn.

Eins og áður hefur verið kynnt hefur verið ákveðið í nánu samráði við Sigríði Önnu skólastjóra að gjöf foreldrafélagsins í ár (2016) verði fjórir skjávarpar til kennslu í 6 og 7 ára bekkjum.

Ágóðinn af páskabingóinu var tæpleg 400 þúsund, sem við erum mjög ánægð með. Með þessari veglegu gjöf er skólinn kominn langt með að setja skjávarpa í allar kennslustofur. Er þetta annað árið í röð sem við látum ágóða páskabingósins renna til verkefnisins og er áætlunin að ágóði af páskabingói 2017 muni einnig nýtast fyrir þetta verkefni. Það verður þá lokapunkturinn á þessu 3ja ára verkefni en þá munu allir 5 ára bekkirnir verða komnir með skjávarpa líka.

Stjórn foreldrafélagsins vill nota tækifærið og þakka öllum fyrir aðstoðina sem þeir veittu foreldrafélaginu á páskabingóinu, bæði í tengslum við veitingasöluna og sjálft bingóið. Einnig viljum við þakka þeim foreldrum og fyrirtækjum, sem aðstoðuðu með að útvega vinninga fyrir bingóið. Sérstakar þakkir fær Ölgerðin fyrir að styrkja foreldrafélagið (þriðja árið í röð) með því að gefa okkur djús sem nýtist bæði fyrir páskabingóið og leikjadaginn. Bestu þakkir til allra sem lögðu hönd á plóg með beinum eða óbeinum hætti.

Svo má til gamans geta að þar sem vel hefur gengið að innheimta árgjald foreldrafélagsins ákvað stjórnin að gefa skólanum spilapakka fyrir um 70.000 kr. og bækur á bókasafnið fyrir um 80.000 kr. Takk kæru foreldrar fyrir ykkar framlag en spil og bækur er eitthvað sem nýtist öllum krökkum í skólanum.

Að lokum hefur sú hugmynd komið upp að halda hausthátíð sem leysa á af hendi vorhátíðina/græna daginn. Við stefnum á hátíðina fljótlega í haust og auglýsum dagsetninguna þegar nær dregur. Með þessu gefst tækifæri til að hrista saman hópinn í upphafi skólaárs og vonum við að þetta mælist vel fyrir. Foreldrafélagið vill að lokum þakka öllum foreldrum kærlega fyrir samstarfið á skólaárinu og óskar öllum ljúfs og gleðilegs sumars.

Með sumarkveðju,
f.h. stjórnar foreldrafélags Ísaksskóla
Borghildur Magnúsdóttir